149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:36]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nú ekki meina að ég hafi farið hér með hræðsluáróður. Ég vil frekar halda því fram að ég reyni að fylgja mínu máli eftir með rökum. Til að rökstyðja orð um fyrirtæki sem eru ráðandi á orkumarkaði þá höfum við fyrirtæki hér sem heitir Landsvirkjun, sem vissulega er ráðandi á orkumarkaði. Eftir því sem ég best veit er verið að búta slík fyrirtæki niður, taka í sundur þau fyrirtæki sem eru ráðandi á orkumarkaði. Það er gert í Evrópusambandinu. Ég á ekki von á því að það verði ekki gert hér.

Það er alveg ljóst að raforkuverð hefur nú þegar hækkað. Hv. þm. Birgir Þórarinsson sýndi okkur beinlínis reikninga fyrr í dag. Það er ekki gripið úr lausu lofti. Þess vegna er mjög svo mikilvægt að við tökum við þeim staðreyndum og þeim rökum.

Ég veit að okkur vantar orku, t.d. á Akureyri, og ég sé alls ekki að orkuöryggi verði þar tryggt ef í framtíðinni verður lagður sæstrengur þar sem á að nota okkar hreinu orku til að bjarga orku í Evrópusambandinu.