149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru ekki bein tengsl á milli þess að fyrri orkupakkar voru samþykktir og hækkaðs orkuverðs. Það eru margar aðrar ástæður fyrir því. Það var vísað í hækkun á Suðurnesjum sem tengdist hugsanlega allt öðru. Ef sama er uppi á teningnum um allt land væru kannski meiri tengsl þar á milli eða ef það væri nær í tíma þar á milli væri þetta kannski rétt. Það þýðir ekki sjálfkrafa að það hafi fylgt hækkun með orkupakka eitt eða tvö. Og var hækkun í bæði orkupakka eitt og tvö? Ef svo er, er þá óhjákvæmilegt að það sé hækkun í orkupakka þrjú? Það eru engin tengsl þar á milli, ekki rökrétt samband. Ekkert í þessum orkupakka segir að það sé rökrétt niðurstaða.

Ef það verður lagður sæstrengur þá ýjar hv. þingmaður að því að öll orkan verði soguð héðan burt til Þýskalands. Hvernig fær hv. þingmaður það út? Orkan (Forseti hringir.) sem sæstrengurinn bæri væri u.þ.b. 25% af allri orkunni miðað við að 80% fari í álfyrirtækin. (Forseti hringir.) Stærðarsamanburðurinn er sá. Það sem 25% af orku myndu knýja áfram í Evrópu eru bara smámunir.