149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi af athygli á ræðu hv. þingmanns og var satt að segja að bíða eftir því að hún tilgreindi hvaða atriði það væru í þriðja orkupakkanum sem hún teldi valda þeim áhrifum sem hún varaði við. Hefur hv. þingmaður tök á að greina okkur frá því hvaða atriði það eru í orkupakkanum sem hún hefur raunverulega áhyggjur af? Því að hún hefur greinilega áhyggjur af þessu.

Ég velti fyrir mér hvort áhyggjur hennar stafi af einhverjum öðrum þáttum en þeim sem felast í þeim orkupakka sem hér er til umfjöllunar. Hugsanlega eru áhyggjur hennar af einhverjum allt öðrum ástæðum. En ég vil gefa henni kost á að koma inn á þetta vegna þess að við erum að ræða tiltekið mál, tilteknar gerðir af hálfu Evrópusambandsins sem ætlunin er að innleiða, og ef hún telur að eitthvað í þeim feli í sér hættu bið ég hana að tilgreina það.