149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvernig hún fái það út að þriðji orkupakkinn standi fyrir því að Landsvirkjun verði bútuð niður. Landsvirkjun er mér að vitandi ekki stórfyrirtæki á evrópskum orkumarkaðinn, heldur tiltölulega smátt í sniðum. Og öll orkuframleiðsla á Íslandi er kannski hálft prósent af þeirri orku sem framleidd er í allri Evrópu. Ég á erfitt með að sjá að það stemmi við það sem hv. þingmaður var að tala um.

Skilja má mál hv. þingmanns þannig að Íslendingar séu að missa forræðið yfir orkuauðlindinni með þriðja orkupakkanum. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann tala með þeim hætti að svo verði, hvorki um orkuauðlindina né hvernig flytja eigi orkuna um landið, þ.e. um flutningskerfi raforku á Íslandi.

Hér ýjar hv. þingmaður að því að mögulegur sæstrengur yfir landamæri, sem sagt grunnvirki yfir landamæri, sæstrengur til Evrópu, gæti valdið orkuskorti á Akureyri eða í Eyjafirði. Ég hjó eftir því í fyrri umr. að ýjað var að því sama hér í aprílmánuði þegar við vorum að ræða tengd málefni þegar hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði í ræðu sinni að uppbygging raforkukerfisins á Norðurlandi, byggðalínan — hv. þingmaður kallaði hana þá norðausturlínu — væri til að tengja við sæstreng.

Þessi umræða er öfugsnúin og einhvern veginn öll á haus. Hún hljómar eins og þetta sé orðin umræða um fullveldi Íslands og vondu útlendingana sem ætla að arðræna landið. Þannig hljómar hún. (Forseti hringir.) Mér finnst svolítið mikill hræðsluáróður í svona tali.

Ég mun koma með fleiri spurningar í seinna andsvari.