149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:48]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef áhyggjur af fullveldinu. Ég óttast ekki endilega útlendinga en langar að rifja aðeins upp það sem fram kom fyrr í dag þar sem hv. þingmaður var ekki í salnum. Þann 15. febrúar 2018 hélt Max Baumgart fræðimaður erindi við Háskólann á Akureyri. Þar dró hann þá ályktun að það væri hreinlega lagaleg skylda ESB að leggja sæstreng til Íslands og að það væri í rauninni ekkert endilega í okkar valdi að standa í vegi fyrir því.

Ég veit að þetta álit er að finna á vefsíðu Háskólans á Akureyri.

Sem ég stend hér er alveg ljóst að Evrópu vantar svokallaða hreina orku. Við erum með hreina orku og það skal enginn segja mér að farið sé í þessa vegferð með það að leiðarljósi að ekki sé einhver að reyna að ná því frá okkur sem við höfum upp á að bjóða. Það höfum við séð á öðrum stöðum og í öðrum ríkjum.