149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt af þessu áliti, enda hef ég aldrei heyrt neinn tala með þessum hætti nokkurs staðar. Mér finnst það furðuleg hugmynd hjá hv. þingmanni að hætta sé á því að sæstrengur væri tengdur við Ísland, þá greinilega gegn vilja Íslendinga, og í framhaldi af því flytji menn álverin til Evrópu og flytji orkuna um sæstreng til Evrópu. Hver er eiginlega orðinn flutningskostnaðurinn á raforkuverði þeirrar orku sem knýr slíkt álver? Er hv. þingmaður búinn að hugsa þá hugsun til enda hvers konar orkuverð yrði á slíkri orku í slíkt álver? Þetta er hreinlega rökvilla. Það vill svo til að flutningur um sæstreng er ekkert ókeypis. Mig grunar að sumir hafi ekki alveg áttað sig á því. Ég er búinn að heyra þetta nokkrum sinnum í þessari umræðu, að það er eins og flutningur um sæstreng sé bara frír. Það er bara grundvallarrökvilla. (Forseti hringir.) Gæti hv. þingmaður útskýrt fyrir mér hvernig hún fær út að þetta sé hægt í veruleikanum?