149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja eftir ræðu hv. þingmanns. Ég ætla að byrja á að segja að það er mjög óheiðarlegt að slíta úr samhengi orð fræðimannsins Davíðs Þórs Björgvinssonar, ég verð að segja það. Mér finnst það mjög óheiðarlegt, enda lét hann þessi orð falla í tengslum við álitsgerð sína, sem er ansi skýr, um að þessir fyrirvarar séu óþarfir og að þriðji orkupakkinn sem slíkur brjóti ekki á neinn hátt gegn stjórnarskrá. Mér finnst mjög óheiðarlegt að koma hingað upp og rangtúlka orð hans í pontu þingsins.

Varðandi lagalega fyrirvara, enn og aftur, sem hv. þingmaður kallar eftir, segir að sé nýtt, þá veit ég ekki hvort ég þarf einfaldlega að lesa upp úr greinargerðinni, sem ég hef nú gert áður. Á blaðsíðu 3 er farið yfir fyrirvarana og þeir eru ansi skýrir. Þeir eru ekki bara sú staðreynd að við séum eyja, eins og einhverjir vilja halda fram. Þetta er einfaldlega sú staðreynd að þau lagalegu ákvæði um lönd sem eru tengd taka ekki gildi. Það mun verða skýrt tekið upp í innleiðingarreglugerðinni.

Hvernig fer það fram? Það fer fram með því að þetta plagg sem við erum að ræða í dag er leyfi Alþingis, það leyfir ríkisstjórninni að koma með innleiðingarreglugerð og þessi fyrirvari mun standa í henni. Þetta er ekki eini fyrirvarinn af því að það er líka fyrirvari til umræðu í atvinnuveganefnd þar sem er fjallað um að Alþingi þurfi að taka ákvörðun um hvort hér verði lagður sæstrengur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann eftir þessar leiðréttingar: Hvað telur hann að felist í valdframsalinu? Er eitthvað meira valdframsal en það að ESA tekur ákvörðun ef ríki sem eru tengd koma sér ekki saman um niðurstöðu eða eru ósammála um niðurstöðu er varðar tengingarnar? Er eitthvað meira í því valdframsali?