149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:20]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans andsvar. Mér er það mikil ánægja að geta upplýst hv. þingmann um það að hann getur sparað sér leit að stóryrðum í þeim ræðum og þeim málflutningi sem ég hef haft uppi í þessu máli og samflokksmenn mínir í Miðflokknum. Hann verður að leita annað að stóryrðum og gífuryrðum.

Það sem er uppi, og er efnislegt inntak í því sem hv. þingmaður beindi helst athygli sinni að, er samspilið á milli Eftirlitsstofnunar Evrópu og hinnar evrópsku Orkustofnunar, ACER. (BLG: Ég bendi engri athygli að því.) Það sem er í mínum huga mikið vandamál í þessu sambandi — og athygli er vakin á í a.m.k. tveimur lögfræðiálitum, hjá þeim tvímenningum sem oftast eru nefndir og sömuleiðis hjá Skúla Magnússyni — er að ekki er annað að sjá en að gengið sé allnokkuð á svig við þá tveggja stoða lausn sem mikil áhersla hefur verið lögð á af hálfu Íslendinga, í ljósi þess að ESA, Eftirlitsstofnun Evrópu, sem við eigum aðild að, tekur við drögum að ákvörðunum frá ACER, þar sem við höfum ekki nema áheyrnaraðild. Þarna er kannski innsti kjarninn í því að þetta tveggja stoða fyrirkomulag, sem hefur verið álitið mjög mikilvægt, m.a. út frá fullveldissjónarmiði — og sérstaklega vil ég nú segja út frá því sjónarmiði að ekki verði árekstur við stjórnarskrána.

Það er hin veika staða ESA gagnvart ACER sem er hér mikið áhyggjuefni. Sú hætta sem er uppi í þessu er framsal valds til stofnunar sem Íslendingar eiga ekki aðild að nema sem áheyrnarfulltrúar.