149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rosalega gaman að tala um ýmislegt sem ég var ekki að spyrja um. Ég var að segja að ACER og ESA hefðu ekkert að segja um Ísland á meðan sæstrengur er ekki til staðar, ekkert. Þetta varðar ákvarðanir um grunnvirki yfir landamæri og það er mjög takmarkað um hvað það snýst. Það snýst um verklagsreglur fyrir úthlutun flutningsgetu, tímamörk úthlutunar, hlutdeild í tekjum vegna kerfisangar og álagningu gjalda á notendur grunnvirkja. Þetta eru einu fjögur atriðin.

Það sem kemur fram í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar er að þeir leggja það upp að þessi listi sé ekki tæmandi. Ef maður fer á milli tungumála og sér að í öllum tungumálum sem þýtt er yfir á í Evrópusambandinu — á dönsku eins og ég tók dæmi um í minni ræðu, á sænsku og á ensku líka — er þetta greinilega tæmandi listi, bæði í lögfræðilegum og rökfræðilegum skilningi. Þetta er mjög vel afmarkað og skýrt valdframsal (Forseti hringir.) sem varðar bara reglurnar um grunnvirkið, sem er sæstrengurinn. Meðan enginn sæstrengur er til staðar er ekkert valdframsal. Ef okkur er ekki skylt að taka upp sæstreng nema með sérstakri ákvörðun hér þá liggur sú ákvörðun áfram hér.