149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann um þessa meintu skyldu okkar til að leggja sæstreng. Mig langaði til að vera svolítið nákvæmur hvað það varðar. Í þriðja orkupakkanum, í reglugerðunum og tilskipunum sem þar koma fram, er ákveðið landskipulag, svæðisskipulag. Íslendingar hafa algjöra stjórn á landskipulaginu, rammaáætluninni eins og hún liggur fyrir, og í svæðisskipulaginu eru Íslendingar mögulega í samvinnu við aðrar þjóðir um lagningu sæstrengja. Það er ekkert í þessu, varðandi rammaáætlunina eða áætlun um dreifikerfi, sem skyldar okkur til að leggja sæstreng að landinu og það er ekkert í svæðisskipulaginu sem skyldar okkur á þann hátt að aðrir í því samstarfi segi við okkur að þarna eigi sæstrengur að koma. Við höfum alltaf neitunarvald gagnvart því, ekki satt?