149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:43]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta er eins og Evrópusambandið segi: Ja, nú ætlum við bara að leggja veg á Íslandi, flugvöll eða eitthvað annað (Gripið fram í.)— það væri nú eitt, það er kannski verið að óska eftir því. Þetta er annað dæmi sem ég hef aldrei náð í þessari umræðu vegna þess að það eru engin fordæmi, frá því að ACER hóf starfsemi sína 2011, fyrir því að einhverju þjóðlandinu sé skipað fyrir: Þið eigið að sinna orkuflutningum með þessum hætti eða virkja með þessum hætti og þess orka á að fara hingað eða þangað. Þetta snýst bara um grunnvirki yfir landamæri. Þetta er ekkert flókið. Og að halda þessu fram í umræðunni — menn hljóta að sjá hversu vitlaust þetta er, hvers konar þvættingur það er, að halda að einhver stofnun í Slóveníu segi við fulltrúa þjóðlanda: Þið eigið að flytja orku þangað, þið eigið að framleiða hana. Þetta er náttúrlega bara þvæla.