149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða það sem mér finnst aðalatriðið í þriðja orkupakkanum og það sem myndi gagnast okkur hér á Íslandi langmest, það er einmitt þessi landsáætlun, svæðisáætlun, sem er tengd orkuörygginu sem slíku, og þá aðeins að grafa í reynslu hv. þingmanns á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem ákveðinn orkuskortur hefur verið. Þessi landsáætlun sem okkur er gert að búa til til þess að stuðla að orkuöryggi — í raun er lögð ákveðin skylda á stjórnvöld að tryggja orkuöryggi í landinu, sem er bara mjög gott, að sjálfsögðu viljum við tryggja orkuöryggi alls staðar á landinu. Á þessum forsendum tel ég þriðja orkupakkann vera mjög góða viðbót í íslenska löggjöf. Ég var að velta því fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái eitthvað að þessari uppsetningu hjá mér, að þetta sé í raun algjör viðbót við núverandi ástand.