149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Það er fráleitt að halda því fram að ACER geti með einhverjum hætti ákveðið hvernig setja eigi upp flutningskerfi eða línur í meginflutningskerfi raforku á Íslandi. Við höfum sjálf varla getað tekist á við verkefnið með því kerfi sem við höfum í dag, eins og hv. þingmaður kemur inn á. Við erum að reyna að vinna með kerfisáætlunina og við tókum hana reyndar í gegnum orkupakkann eins og fram kom í þessari umræðu, sem er ákveðið óskilgetið afkvæmi þriðja orkupakkans ef út í það er farið. Það er öllum ljóst að það eru Íslendingar og skipulagsyfirvöld á Íslandi sem fara með þessi völd, hvort sem það verður þá landsskipulagsstefnan, kerfisáætlunin, einstök sveitarfélög, framkvæmdarvald eða annað. Það vita allir Íslendingar að þetta er flókið ferli og tekur langan tíma og menn (Forseti hringir.) hlaupa ekkert yfir það með auðveldum hætti, eins og sumir hafa sagt að hægt væri að gera.