149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held einmitt að það sem geti gerst núna, ef þetta verður keyrt hér í gegnum þingið, sé að það fari virkilega að bera á óánægju með samninginn, að sú sátt sem ríkt hefur bresti. Það er leið til að fara, til að halda þessari sátt, þessi lögformlega leið sem við höfum nefnt hér nokkuð oft, Miðflokksmenn, sem er samningsbundin leið og hún er að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Þá kemur niðurstaða og það er lögformleg niðurstaða sem ekki er hægt að deila um og þá er ekki hægt að saka menn um að hafa ekki farið rétta leið. Í framhaldi af því ætti að ríkja meiri sátt um samninginn vegna þess að hann hefur leið til þess að reyna að leysa deilumál. Ég held þetta blasi við, hv. þingmaður.