149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:55]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að þetta kemur mér á óvart. Ég þekki þingmanninn að góðu einu sem Sjálfstæðismann og svona einn af þeim, hvað á maður að segja, harðari Sjálfstæðismönnum. Það er sagt í virðingu og upphefð.

Varðandi fyrirvarana sem ég er að spyrja um þá fæ ég ekki svör um að nokkur kannist við að þeir hafi verið settir og hafi haldið við svona gerðir. Mig langar því að spyrja aftur hvort hv. þingmaður kannist við að slíkir fyrirvarar hafi verið gerðir og hvort þeir hafi haldið. Ef svo er get ég skilið að hann telji að þetta sé rétta leiðin en ég á bágt með að skilja að hann telji það réttu leiðina þegar allir hafa lýst því yfir að þetta sé ekkert mál, að allir hafi samþykkt, EES, ESB og Ísland. Af hverju ekki að fara hina lögformlegu leið og fá það meitlað í stein þar?