149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Það eru reyndar þrír staðir á Íslandi eða þrjú svæði sem búa við slæmt afhendingaröryggi eða orkuöryggi. Það er Eyjafjörðurinn á Norðurlandi, að hluta, Vestfirðir og Suðurnes, Reykjanes.

Ég var að tala um þetta í stærra samhengi. Þegar maður kynnir sér þessa pakka er talað um afhendingaröryggi í þriðja orkupakkanum, eins og hefur komið fram. Afhendingaröryggi er orðað í þriðja orkupakkanum sem eitt af verkefnunum sem tengjast innleiðingunni.

Ég á náttúrlega eftir að sjá nákvæmlega hvað þetta gerir fyrir okkur Íslendinga en ég er að benda á að þarna er þó talað um það, vegna þess að í íslenskum lögum hefur ekkert verið gert með þetta. Þetta er bara hluti af neytendaverndinni og öryggi, sem snýr að þessu (Forseti hringir.) og er gríðarlega mikilvægt atriði. Við Íslendingar höfum ekki náð að sinna (Forseti hringir.) því í mjög langan tíma nema rétt á suðvesturhorninu í orkukerfinu sem þar er.