149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það eru einmitt þessi tvö atriði sem mig langaði að koma inn á í seinna andsvari mínu. Annars vegar sjónarmiðið sem snýr að ákvæði 102. gr., sem við teljum vera virkt, og rétti okkar að vísa máli til sameiginlegu EES-nefndarinnar til frekari vinnslu og hins vegar þetta atriði sem mér sýnist hafa verið notað sem sérstakur rökstuðningur hvað það varðar að gera kröfu um að Ísland innleiddi þriðja orkupakkann eins og hann kemur fyrir. Þá er ég að vísa til þess að okkur hafi gengið svo vel að innleiða annan orkupakkann að við höfum innleitt hann með miklu meira afgerandi hætti en raunverulega var gerð krafa til okkar um.

Þetta hljómar allt dálítið eins og embættismannakerfin öll taki völdin af stjórnmálamönnunum og mál eins og þetta öðlist sjálfstætt líf. Það sjálfstæða líf mun í hugum margra væntanlega skila okkur fjórða og fimmta pakkanum á færibandi.

Spurningin er þessi: Sjónarmiðin um að við höfum staðið okkur svo vel við að innleiða annan orkupakkann að það sé ekkert annað í stöðunni en að innleiða þriðja — hvernig slá þessi rök hv. þingmann? Hins vegar það sjónarmið að af því að menn hafa ekki notað 102. gr. hingað til sé ekkert vit í að fara að nota hana núna.