149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kem hér í aðra ræðu mína um þetta mál og langar til þess að byrja á að ræða það sem hefur verið kallað fyrirvararnir, hinir meintu fyrirvarar eða hvernig sem við orðum það.

Það var sennilega upp úr fjögur í dag sem varð uppi fótur og fit meðal stjórnarþingmanna og fulltrúa þeirra hópa sem styðja þetta mál þegar þeirri sáraeinföldu spurningu var beint fram í ræðu hvar títtrædda fyrirvara væri að finna. Menn skutust hér á milli herbergja og gripu til allra þeirra plagga sem fundust en það má segja að þrjú plögg hafi fyrst og fremst verið gripin sem haldreipi. Það er í fyrsta lagi svokölluð frétt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins sem ber yfirskriftina Sameiginlegur skilningur um gildi þriðja orkupakkans gagnvart Íslandi, sem birtist 22. mars 2019. Það er sem sagt frétt um fund Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, hæstv. utanríkisráðherra, og Miguel Arias Cañetes, framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þetta var fyrsta plaggið sem var veifað sem hinum meintu fyrirvörum í miklu havaríi.

Síðan bættist við plagg sem birtist jafnframt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins 10. maí 2019, sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna í EES um sérstöðu Íslands, sem er efnislega í meginatriðum sambærileg því sem fram kom í frétt utanríkisráðuneytisins á heimasíðu þess þann 22. mars.

Þriðja plaggið sem var vísað til var þingsályktunartillagan sjálf og eftir mikið japl, jaml og fuður var lesin upp málsgrein á blaðsíðu 3 sem ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa upp. Nú eru það bara þeir sem á hlusta sem meta það hvernig þeir upplifa þann fyrirvara sem hér er orðaður. Hefst þá lesturinn:

„Lagt er til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu.“

Mér heyrist hv. formaður utanríkismálanefndar vera að leggja að mér að lesa áfram, ég skal gera það í næstu ræðu minni ef efnið gefur tilefni til. En það er í rauninni fátt í þessu sem ég held að menn geti skynjað sem fyrirvara í málinu.

Ef við skoðum þetta með bærilega gagnrýnum augum þá langar mig í þessu samhengi að nefna gesti utanríkismálanefndar, sérfræðinga, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson prófessor, sem hafa verið mikið ræddir í umræðunni, og álit þeirra. Þeir sögðu á fundi utanríkismálanefndar að þeir hefðu ekki séð neina fyrirvara. Þeir höfðu ekki séð fyrirvarana og á þeim tíma lágu öll þessi þrjú plögg fyrir og þeir höfðu séð þau. En þeir mátu þau þrjú atriði, sem er búið að flagga í allan dag sem meintum fyrirvörum, ekki sem neina fyrirvara, enda haldlaus plögg sem eru að líkindum fyrst og fremst til heimabrúks eins og sagt hefur verið.

Ég ítreka að þeir sérfræðingar sem við höfum horft mest til í málinu voru búnir að sjá þetta plagg og svöruðu spurningum þannig að þeir hefðu ekki séð neina fyrirvara. Þetta er svona eftiráskýring, held ég að sé óhætt að segja, sem ekkert hald er í.

Yfirlýsingar þingmanna í dag um að þarna séu hinir stórgóðu fyrirvara sem öllu eiga að bjarga í horn, setur í samhengi yfirlýsingar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, Þorsteins Pálssonar, sem sagði, með leyfi forseta:

„Almennt er rangt og ámælisvert að beita blekkingum. Í sumum tilvikum er það refsivert. En samt er það svo að blekkingar geta verið réttlætanlegar og jafnvel lofsverðar. Töframenn draga til að mynda kanínur upp úr pípuhöttum sínum öðrum til gleði og ánægju.

En því er á þetta minnst að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þurfti að grípa til kúnstar af þessu tagi til þess að geta lagt þriðja orkupakkann fyrir Alþingi. Og satt best að segja á hann fullt lof skilið fyrir vikið.“

Þetta er nú býsna merkileg yfirlýsing og afstaða fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Það verður auðvitað ekki sagt um Þorstein Pálsson, ef maður skynjar afstöðu hans rétt, annað en að hann sé mikill áhugamaður um öll þau skref sem hægt er að stíga sem leiða áfram veginn í átt að inngöngu í Evrópusambandið. Alla vega slær þetta mig þannig að þessi orð séu sögð út frá því sjónarhorni.

Það er auðvitað þannig þegar samfélagsrýnir, skulum við kalla hann, sem hafði þá stöðu sem hann hafði sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og sem hefur verið virkur í umræðunni um Evrópumál hingað til stimplar þá leið sem hér er farin til þess að fá fyrst og fremst þingflokk Sjálfstæðisflokksins til að kokgleypa það sem fyrir er lagt, hina svokölluðu fyrirvara sem eru hér, eftir því hver hleypur til, einhver frétt á heimasíðu frá 22. mars eða önnur frétt á heimasíðu frá 10. maí eða texti í þingsályktun sem ég verð að viðurkenna að ég get ekki skynjað mikið hald í.

Það hefur verið krafa okkar Miðflokksmanna í dag, og mér þykir hún ekki ósanngjörn, að spurning verði lögð fyrir þá sérfræðinga sem fyrir nefndina komu. Það má þá leggja hana fyrir fleiri, Davíð Þór Björgvinsson t.d., til viðbótar við þá sérfræðinga sem ég nefndi áðan, Friðrik Árna Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson og einhverja fleiri til. Við viljum bara gjarnan óska eftir því og höfum gert það að sú einfalda spurning verði lögð fyrir þessa sérfræðinga: Er þetta fullnægjandi? Er þetta það sem að ykkar mati dugar og heldur sem fyrirvarar? Er þetta það sem þið voruð að leggja til?

Ég minni á að þessir menn, og þá get ég reyndar eingöngu talað um Friðrik Árna Friðriksson Hirst og Stefán Má Stefánsson samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, svöruðu því til á nefndarfundi utanríkismálanefndar að þeir hefðu ekki séð fyrirvarana.

Ég ítreka að á þeim tíma sem þeir staðfesta að þeir hafi ekki séð fyrirvarana þá liggur þetta þrennt fyrir. Ástæða þess að til þeirra er leitað er að þetta eru einhverjir skörpustu greinendur samfélags okkar á slík mál. Eins og ég segi er staðan er sú að þessir tveir sérfræðingar segja á fundum utanríkismálanefndar að þeir hafi ekki séð fyrirvarana. Þeir lágu allir fyrir á þeim tímapunkti, hinir meintu fyrirvarar. Það mun ekki tefja, það liggur ekki þannig á með þetta mál að það muni hljóta neinn mikinn skaða af, að menn taki sér þann tíma og spyrji sérfræðingana: Er þetta það sem haldið er í? Eru þessir þrír fyrirvarar, meintu fyrirvarar sem búið er að flagga í dag, það sem um ræðir? Ég held að það sé alveg þess virði að boða til eins og eins fundar.