149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ljósi þess að hv. þingmaður nefnir hina svokölluðu lagalegu fyrirvara, sem við höfum komist að í dag að virðast ekki vera til, velti ég því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi lesið þær yfirlýsingar sem talsmenn þessarar tillögu kalla lagalega fyrirvara. Þær yfirlýsingar eru mjög vandlega orðaðar, skulum við segja, en þó þess eðlis að þær segja ekki neitt. Ég nefni sem dæmi það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur haft eftir Miguel Arias Cañete, sem mun vera framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en hann og hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, saman að því er virðist, segja, með leyfi forseta:

„Raforkukerfi Íslands er eins og stendur einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefur stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.“

Hér er einfaldlega verið að benda á að raforkustrengur sé ekki til staðar, að Ísland sé eyja, og á meðan raforkustrengur sé ekki til staðar skipti ekki máli ákvæði sem varða það að raforkustrengur væri til staðar. Þetta er náttúrlega bara einhver hringavitleysa, eða það er mat mitt. Er hv. þingmaður sammála mér?