149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svörin við þessum tveimur spurningum eru: Já og já. Nú skal ég útskýra það. Eins og sést eru þessar athugasemdir yfirstrikaðar með gulu, þær sem mér þótti athyglisverðar þegar ég las þessar fréttatilkynningar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Byrjum á þeirri sem birtist þann 22. mars, um sameiginlegan skilning um gildi þriðja orkupakkans gagnvart Íslandi, sem sagt eftir fund hæstv. ráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Spánverjans Cañete — við skulum reyna að finna út úr því hvernig á að bera nafn hins ágæta manns fram svo að við klæmumst ekki á því hér í alla nótt.

Það vakti athygli mína að sjá svona orðaplagg sem eitthvert hald á að vera í þar sem notuð eru orðin „eins og stendur“: „Raforkukerfi Íslands er eins og stendur einangrað kerfi“. Þetta er setning sem menn eru alveg búnir að hugsa hvernig þeir ætli að tala sig út úr síðar. Og svo eru það orðin: „Á meðan“, með leyfi forseta: „ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.“

Þetta þýðir að menn eru að horfa eitthvað fram fyrir sig í tíma og auðvitað er mönnum alltaf hollt að spyrja sjálfa sig: Og hvað svo? Hvað tekur við þegar búið er að stinga í samband?

Sama er í yfirlýsingunni frá 10. maí, svokallaðri sameiginlegri yfirlýsingu EFTA-ríkja í ESA um sérstöðu Íslands — þar er sama orðanotkun með smá krúsindúllum í kring, „eins og stendur“ og síðan „á meðan“ enginn raforkusæstrengur er til staðar. Þetta byggir allt undir það (Forseti hringir.) að menn eigi auðvelt með (Forseti hringir.) að tala sig út úr þessum heimatilbúnu skýringum þegar frá líður.