149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar aðeins að eiga orðastað við hann varðandi sæstreng, sem er mjög þýðingarmikið atriði í þessu öllu saman, hvort það blasi ekki við að þessi fyrirvari — eigum við ekki bara að kalla hann týnda fyrirvarann? Ja, við höfum ekki fengið að sjá hann nema þá í greinargerð, sem er mjög sérstakt og lýsir því kannski að þetta er ekki tekið mjög alvarlega af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Varðandi þann fyrirvara sem setja á í lög um að ekki verði heimilt að leggja hér sæstreng nema með leyfi Alþingis, blasir það ekki við, hv. þingmaður, að um leið og Landsvirkjun telur það henta að selja orkuna yfir á þennan sameiginlega markað, sem við munum undirgangast með því að innleiða þessa tilskipun, muni þeir fara fram á að lögin verði afnumin, bara þegar þeir sjá fram á orðið sé arðbært fyrir fyrirtækið að selja orkuna um sæstreng? Það væri gott að fá álit hv. þingmanns á því. Vegna þess að ég er sannfærður um að það verða innlendir hagsmunaaðilar sem munu þrýsta á að héðan verði lagður sæstrengur. (Forseti hringir.)

Ég held að menn þurfi ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því að það (Forseti hringir.) komi frá Evrópu. Ég held að það verði nefnilega (Forseti hringir.) akkúrat öfugt. Það (Forseti hringir.) er kannski aukaatriði í þessu, en (Forseti hringir.) það væri gott að fá álit hv. þingmanns á því.