149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Ég held að það þurfi svo sem enginn að velkjast í vafa um að áhugi stórframleiðenda hér heima fyrir er umtalsverður hvað það varðar að komast inn í það umhverfi að geta selt raforku um sæstreng til útlanda. Ég er sammála þingmanninum hvað það varðar að ég tel líklegt að þrýstingurinn verði meiri að heiman en frá útlöndum. En ég tel samt líklegt að þrýstingurinn verði töluverður að utan. Það má í rauninni segja að þessi staða setji í sérstakt samhengi það sem stendur í reglugerð 713 þar sem, með leyfi forseta, segir:

„Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku.“

Því er haldið fram að ACER hafi enga stöðu til að þrýsta á um að Ísland opni fyrir áhugasama aðila. En þegar því er beinlínis lýst í reglugerðinni að aðildarríkin skuli vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku, þá skal engan undra að ekki séu allir rólegir með þetta furðuverk.