149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Margt má meta út frá látbragði og viðbrögðum. Sú uppákoma sem varð hér um miðjan dag, sennilega um kl. 4, þegar þingmenn, mér sýndist helst þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hlupu hér á milli hliðarherbergja og um salinn þveran og endilangan til að leita að fyrirvörum, bendir dálítið til þess að menn hafi þurft að finna þá upp á staðnum, sem skýrir auðvitað það að hálftíma seinna voru þeir komnir með þrjá mismunandi fyrirvara. Menn flögguðu pappírum: Hérna er fyrirvari og hérna er fyrirvari og við fórum á netið og fundum fyrirvara. Þetta var allt saman mjög skrýtið og ótrúverðugt. Ég trúi því hreinlega ekki að þingmenn séu á þeim stað að vilja klára þetta mál án þess að kalla eftir áliti sérfræðinga á því hvort þetta geti verið það sem um er að ræða.

Okkar góðu sérfræðingar komu fyrir nefndina, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, og ég held að þingheimur allur beri töluvert mikið traust til þeirra. Samkvæmt mínum upplýsingum sögðu þeir á fundi utanríkismálanefndar að þeir hefðu ekki séð neina fyrirvara. Þetta lá allt fyrir á þeim punkti þegar þeirri spurningu var svarað. Og ef þeir meta þetta ekki sem fyrirvara þá treysti ég mér ekki til að telja hald í þessu. Það er bara þannig.