149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að þetta sé alveg rétt athugað. Maður veltir því fyrir sér, herra forseti, hvers vegna þetta mál er keyrt svona í gegn. Er einhver þrýstingur í samfélaginu á að keyra þetta mál í gegn frá einhverjum aðilum sem hafa hagsmuna að gæta? Auðvitað vonar maður að svo sé ekki en maður getur heldur ekki komist hjá því að velta því fyrir sér.

Við sjáum það bara í því að þetta mikilvæga mál sem snertir alla þjóðina til framtíðar og komandi kynslóðir skuli rætt hér inn í nóttina og öðrum málum, eins og við höfum nefnt, heilbrigðisstefnu, ýtt til hliðar. Hér þurfa þingmenn að mæta í nefndastörf í fyrramálið kl. hálfníu, klukkan að verða hálfþrjú að nóttu. (Forseti hringir.) Þessi vinnubrögð eru með þeim hætti að þau vekja óneitanlega spurningar. Það verður bara að segjast eins og er, herra forseti.