149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:23]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmenn eru farnir að leggja það í vana sinn að þakka almennt fyrir ræður og andsvör, jafnvel þegar ekkert sérstakt tilefni er til. En nú tel ég vera sérstakt tilefni til að þakka fyrir ákaflega góða og yfirgripsmikla ræðu þrátt fyrir að hv. þingmaður hefði mjög skamman tíma til ráðstöfunar. Raunar var hún það yfirgripsmikil og vakti það margar spurningar hjá mér að ég veit eiginlega varla hvar ég á að byrja.

Á einum tímapunkti í ræðuhöldum hv. þingmanns rifjuðust upp fyrir mér fræg orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar, sem hann lét falla hér í pontu fyrir ekkert allt of mörgum árum: Þegar kommúnisminn og frelsið mætast þá þarf frelsið að víkja. Ég vona að ég fari rétt með, hæstv. forseti. Ástæðan fyrir að þetta rifjaðist upp fyrir mér er að hv. þingmaður nefndi markmið Evrópusambandsins og hvað það er tilbúið að ganga langt til að tryggja að þau nái fram að ganga.

Nú er ég ekki með þessu að líkja Evrópusambandinu við Sovétríkin. Við höfum bara svo oft séð að þegar Evrópusambandið er búið að setja sér markmið þá ímyndar maður sér að óljósir fyrirvarar í fylgiskjali eða greinargerð þurfi að víkja þegar það mætir markmiðum Evrópusambandsins. Er hv. þingmaður sammála þessu mati mínu að í ljósi þess hversu mikla áherslu Evrópusambandið leggur einmitt á orkumálin og að auka aðgengi að hreinni orku og tengja saman orkukerfi Evrópu þá muni þessir svokölluðu fyrirvarar mega sín lítils gagnvart þeim hagsmunum?