149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er honum hjartanlega sammála í þessu og það þekkjast ekki dæmi þess að Evrópusambandið sé yfir höfuð hrifið af fyrirvörum almennt. Ef þeir eru veittir eru þeir nánast eingöngu veittir í gegnum þessa sameiginlegu EES-nefnd. Í mínum huga eru þetta draumórar í huga ríkisstjórnarinnar að ætlast til þess að einhverjir fyrirvarar verði samþykktir möglunarlaust á vegum Evrópusambandsins. Það mun ekki verða. Það er alveg klárt í mínum huga.

Annað sem er merkilegt við þetta er það að ég held einmitt að vegna þess, og ég er sannfærður um það, hversu þetta er mikilvægt verkefni Evrópusambandsins, að þetta frjálsa flæði raforkunnar um Evrópu verði að veruleika, eitt markaðssvæði og aðgangur að hreinni orku, þá líti það á okkur sem mikla bandamenn í þessum efnum og muni ekki fara að styggja okkur ef við förum með þetta mál fyrir sameiginlegu EES-nefndina og óskum eftir undanþágu þar. Sambandið mun þvert á móti reyna að vinna með okkur í þeim efnum til að sjá til þess að við segjum einfaldlega ekki samningnum upp. Það er eitthvað, held ég, sem yrði mikið áfall fyrir Evrópusambandið, sérstaklega í ljósi orkumálanna, ef við hyrfum frá þessum samningi. Hann skiptir okkur máli og hann skiptir það máli. Þess vegna held ég að þessi hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar, um að samningurinn sé í uppnámi o.s.frv., eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Ég tek bara undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar.