149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hissa ef enn einn fyrirvarinn hefur poppað upp. Ég nefndi, held ég, fjóra. Eru þeir fleiri? (BergÓ: Nei, það var fjórði …) Þetta eru uppástungur, ég myndi ekki vilja kalla það fyrirvara nema við fáum það alveg kristaltært, eins og við höfum kallað eftir, herra forseti, og fáum sérfræðinga sem geta leiðbeint okkur í því. Við erum búin að fá uppástungur um a.m.k. fjóra lagalega fyrirvara frá trúlega fjórum mismunandi þingmönnum stjórnarliðanna. Þeir hafa komið upp í pontu, hver á fætur öðrum, í allan dag og stungið upp á því hvar þessi fyrirvari sé og hvar hann sé að finna. Þetta er svolítið spaugilegt, herra forseti.

Ég vil minna herra forseta á að auðvitað var það svo fyrir miðnætti í kvöld, kannski milli tíu og miðnættis, þegar forseti lýsti því yfir að fundinum væri senn að ljúka og við gætum lokið þessu mjög fljótlega að þá litu menn til þess að það yrði kannski á miðnætti eða klukkan eitt, herra forseti. Ég veit (Forseti hringir.) til þess að það voru menn sem tóku sig af mælendaskrá í því trausti að umræðu yrði frestað.