149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir virkilega góða ræðu. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt, það er dapurlegt að hún skuli vera flutt um hánótt og almenningur hafi ekki kost á að hlusta á hana, en vonandi síðar. Hún var virkilega góð og þarna kom margt fram sem skiptir máli.

Það sem ég vildi víkja að og fá hugleiðingar frá hv. þingmanni um eru þær yfirlýsingar sem utanríkisráðherra hefur komið á framfæri, sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem lýtur að gildi þriðja orkupakkans gagnvart Íslandi, og svo er einnig sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna.

Í ljósi fyrri starfa hv. þingmanns sem sýslumaður til fjölda ára og lögfræðimenntunar: Hvernig virka svona fyrirvarar á hann? Er ekki afar hæpið að svona fyrirvarar haldi ef verður látið á það reyna, þeir hafi eitthvert gildi gagnvart t.d. dómstólum ef svo ber undir? Þetta ber svolítið einkennilega að, allt í einu birtast þessar yfirlýsingar, held ég á vef utanríkisráðuneytisins, og mætti ætla að það hafi verið (Forseti hringir.) pínulítið panikástand af hálfu ráðuneytisins og hæstv. ráðherra að koma þessu frá sér.