149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er afar áhugavert að ákveðið fólk hér á Alþingi skuli velja að fara þá leið sem hér er lýst. Svo ég haldi áfram með þetta álit þá tala þeir félagar um að þetta breyti ekki því, þrátt fyrir hið svokallaða tveggja stoða kerfi, að ákvörðunin er í grunninn samin af ACER og áhrif ACER á efni þessara ákvarðana séu því veruleg. Ef maður skilur þetta rétt þá geta álitamál komið upp, drögin eru í raun og veru samin af ACER sem segir ESA hvernig eigi að bregðast við. Og ef upp kemur ágreiningur er honum vísað aftur til ACER. Er það svo að sami aðilinn hefur meginaðkomuna að því að semja álitið og síðan aftur að úrskurða um það ef ekki er gagnkvæmur skilningur eða sátt um það sem frá nefndinni kemur? Eða er ég að misskilja eitthvað?

Ég verð að segja það að ég næ því ekki af hverju þessi leið er valin. Þetta virðist allt lykta af því að Evrópusambandið, fyrr eða seinna, skuli hafa meginítökin þrátt fyrir að EES-ríkin hafi valið að standa utan Evrópusambandsins en eiga náin tengsl við það samband.