149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:55]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyrði áðan, á meðan hv. þingmaður flutti sitt andsvar, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem hér eru staddir í húsi voru eitthvað ósáttir við spurninguna. Ég hvet þá eindregið til þess að halda ræðu og gera grein fyrir því hvað þeir voru ósáttir við í nálgun hv. þingmanns. En það er algerlega ljóst ef menn kynna sér einfaldlega þessa stofnun, ACER og hvernig hún starfar, hvaða reglur gilda um áfrýjanir þar.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins kunna að vera að rugla saman við það þegar málum er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fyrstu viðbrögð, væntanlega Íslendinga, væru þeir ósáttir við það sem berst fyrir milligöngu ESA frá ACER. En þá hlýtur maður að spyrja sig: Myndu menn þora því í slíku tilviki? Það virðist vera gríðarleg hræðsla ríkjandi við að vísa málum til sameiginlegu EES-nefndarinnar þrátt fyrir þann rétt sem við höfum til þess. Málið sem við ræðum einmitt núna er skýrasta dæmið um það, mál sem er mjög umdeilt og varðar mikla grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Stjórnvöld þora ekki einu sinni að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar í það sáttaferli, eins og það er orðað, sem sérstaklega er gert ráð fyrir í EES-samningnum. Svoleiðis að það er svolítið kúnstugt, virðulegur forseti, þegar menn kalla fram í eitthvað um að það sé alltaf hægt að vísa málum aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.