149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:57]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Nú er klukkan að slá fjögur og við ræðum þingsályktunartillögu um innleiðingu á orkupakka þrjú. Slíkur er asinn og slík er neyðin að það þarf að gera þetta á nóttunni. Slík er neyðin að forseti Alþingis gaf í skyn að hér yrði talað fram til miðnættis, kannski eitthvað lengur, og í ljósi þess að margir þingmenn væru á mælendaskrá yrði umræðan ekki kláruð. Þingmenn létu því taka sig af mælendaskrá í trausti þess að þeir myndu geta flutt ræður sínar og svarað andsvörum seinna í umræðunni, eftir að henni yrði frestað.

Það er sennilega ýmislegt hér sem liggur meira á en þetta mál. Ég sé ekki að það sé neitt að brenna í orkumálum þó að þessi tiltekna gerð verði ekki innleidd hið snarasta. Mig langar að nefna samgöngumál. Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar hefur ekki enn litið dagsins ljós þó svo að því hafi verið lýst yfir að það þoli enga bið. Meðal annars er þar verið að tala um slys á fólki sem nema um 50 milljörðum á ári, að ótöldum sársauka og missi, en það má bíða, það liggur ekkert á því. Heilbrigðisáætlun til langsframa, við getum frestað henni. Hverjum liggur á henni, heilbrigðiskerfið er í toppstandi? Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, við frestum henni. Það liggur ekkert á henni, er það?

Mig langar líka að ræða áfram, af því að það er efni fundarins, fyrirvarana sem hafa verið ræddir áður. Því hefur verið lýst að ef ekki verður farin sú leið sem er búið að leggja fram verði engin vettlingatök sem muni gilda ef við ákveðum að vísa málinu hinn formlega farveg, eins og er í samræmi við samninginn sem við erum þó aðilar að.

Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem er formaður utanríkismálanefndar, lýsti því yfir að það væri mikil pólitísk óvissa og ekki víst hvernig þetta myndi fara. Mér þætti vænt um, af því að ég veit að hún er í húsi, að hún stigi í pontu og upplýsti okkur um það hvort hún hafi fengið einhver skilaboð þess efnis eða hvort það hafi verið gefið í skyn við annaðhvort hæstv. utanríkisráðherra eða við ríkisstjórn landsins eða við einstaka þingmenn, nefndarmenn, að ef við færum þessa lögformlegu leið myndi það hafa afleiðingar — og þá hverjar. Ég held að það væri afar fróðlegt að vita hverjar þær afleiðingar ættu að vera.

Auðlindina sem um ræðir eigum við saman, íslenska þjóðin, og arðurinn rennur til þjóðarinnar. Það var fyrirséð í upphafi að hann myndi ekki fara að skila sér fyrr en að umtalsverðum tíma liðnum. Hér hafa verið færð rök fyrir því að ætla megi að hluti af til að mynda Landsvirkjun gæti verið einkavæddur á þeirri forsendu að Landsvirkjun hafi ráðandi stöðu á markaði og þeir sem kæmu nýir inn á markað gætu fundið fyrir því að þeir ættu erfitt uppdráttar í skugga svo stórs fyrirtækis. Við þær aðstæður má ætla að viðskiptalegar forsendur þeirrar uppskiptingar gerðu ráð fyrir að aukin krafa yrði á arðsemi fjárfestingarinnar á styttri tíma, sem myndi þrýsta upp verði á orkunni. Ég held að það sé ekki galin útleiðsla á rökum.

Maður spyr sig þá hverjir það væru helst sem gætu komið til og keypt sér virkjun eða keypt sér nægt landrými og vatnsréttindi eða landrými undir vindorkugarð til að geta stunda slík viðskipti. Ég held að nokkuð ljóst sé að það verður ekki þessi meðaljón sem býr á Íslandi, það verða einhverjir stærri aðilar. Þeir munu gera þá kröfu að arðurinn skili sér á styttri tíma en þjóðin gerði þegar við réðumst í það að stofna Landsvirkjun á sjöunda áratug síðustu aldar.

Mig langar líka til að koma inn á eitt sem hefur vakið athygli mína í málinu. Í ríkisstjórn er Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi og utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem alla vega eitt sinn átti kjörorðin: Gjör rétt, þol ei órétt. En hverjir eru það sem harðast berjast fyrir því að þetta nái fram að ganga á þeim forsendum sem hefur verið lýst? Það eru einkum vinstri flokkar eins og Viðreisn og Samfylking sem hafa heitið ríkisstjórninni stuðningi við að koma málinu í gegn. Ég er þó svo gamall að ég er minnugur þess að þetta eru sömu flokkar, Viðreisn var reyndar ekki til á þeim tíma, þetta eru sömu einstaklingar í mörgum tilfellum og harðast börðust fyrir Icesave, þ.e. fyrir því að beygja sig fyrir evrópsku valdi, að standa ekki í lappirnar og berjast ekki fyrir hagsmunum Íslendinga. Þrátt fyrir að við séum í samstarfi þjóða og eigum í viðskiptum við bandalög eða í gegnum tvíhliða samninga erum við jú aðilar að þeim samningum og við viljum vera það, en við hljótum fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni Íslendinga.

Þeir sem leiða þá vinnu eru, að ég vil meina, að falla á því prófi vegna þess að eitt einkenni góðra leiðtoga er að sætta sjónarmið. Það sem er svolítið merkilegt í því er að þegar menn sætta sjónarmið taka þeir upplýstar ákvarðanir. Það liggur alveg fyrir í mínum huga, nema menn og konur meini ekki það sem þau segja, að þingið er sammála um að orkupakki þrjú eins og hann liggur fyrir verði ekki innleiddur í íslenska löggjöf án breytinga. Það er forsenda þingsályktunartillögunnar. Hér hafa margir hv. þingmenn komið og sagt að þeir hafi verið efasemdarmenn en vegna breytinganna séu þeir tilbúnir að fylgja málinu eftir. Breytingarnar eru þær að settur skuli lagalegur fyrirvari við innleiðinguna. Þá komum við aftur að þeim, lagalegu fyrirvörunum, sem eru því miður svo þunnir og í raun ekki einu sinni ljóst hverjir þeir eru.

Bent hefur verið á nokkra staði en ég hugsa að maður þurfi að taka orð formanns utanríkismálanefndar fyrir því að þeir séu á blaðsíðu 3 í nefndarálitinu. Ég verð að segja þegar ég les þetta yfir að það er eitthvað mjög skrýtið við að það verði tekið orðrétt upp og sett inn í innleiðingar gerðanna. Ég get ekki séð að það geti skoðast sem lagalegir fyrirvarar. Ég kalla eftir því að hlustað verði á þá ósk okkar sem hér stöndum og höldum ræður, herra forseti, (Forseti hringir.) að fengið verði lagalegt álit á því (Forseti hringir.) hvort þeir fyrirvarar séu fyrirvarar (Forseti hringir.) fyrir það fyrsta og þá í annan stað hvort þeir haldi.