149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Við erum farnir að ræða svona mál hér vegna þess að menn standa hreinlega á gati og eru ekki vissir um hvað sé að gerast. Ég held að það geti vel verið að menn og konur séu hrædd við að taka ákvörðun vegna þess að þetta er miklu þægilegra til skamms tíma litið.

Einhvern tímann var grínast með að hinn fullkomni embættismaður gerði ekki neitt því að sá sem ekkert geri geri enga vitleysu. Hér er kannski komið lifandi dæmi um það að menn og konur þori hreinlega ekki að standa í lappirnar eða gera það sem þau voru ráðin til, að fylgja eftir hagsmunum Íslendinga og standa í lappirnar; þori það ekki vegna þess að það er óþægilegt. Það kallar á að fólk þarf raunverulega að beita sér.

Það er akkúrat það sem einkennir góða leiðtoga. Góður leiðtogi þarf að standa fremstur í flokki og sýna fram á að hann sé tilbúinn að ríða á vaðið, vaða eldinn og vaða brennisteininn, því að þannig sannfærir hann fylgjendur sína um að óhætt sé að fylgja. Sá sem stendur baka til og sigar fólki og etur á foraðið er ekki leiðtogi, ekki í mínum huga, alla vega.

Ég held að það geti bara vel verið að staðan sé sú að menn þori hreinlega ekki og hugsi sem svo: Ja, í svipinn gerist ekki neitt. Ég verð kannski komin eitthvert annað og á þægilegri stað þegar raunverulegar afleiðingar hellast yfir þjóðina.