149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er einmitt það sem ég óttast. En þá er spurningin þessi: Hvað segir það okkur um framhaldið ef menn á þessum tímapunkti, þegar réttur okkar er þó algerlega skýr og mjög margt sem mælir með því að við nýtum þann rétt, ekki bara vegna eðlis málsins, sem er augljóst að mínu mati, heldur líka einfaldlega til þess að stimpla það inn að við eigum þennan rétt og séum tilbúin til að nýta hann, þegar menn treysta sér ekki til þess við þessar aðstæður? Hvað munu hinir sömu þá gera í framhaldinu þegar næsta sneið verður tekin af fullveldinu, þegar næsti áfangi í þessum stóru markmiðum orkupakkans á að nást? Munu þessir sömu aðilar þá þora að segja: Hingað og ekki lengra? Aðilar sem þora ekki einu sinni að senda mál aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem hafa þó skýran rétt til þess?