149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:17]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir spurninguna. Já, ég held að það sé alveg morgunljóst að það sem þeir eru að gefa í skyn sé akkúrat að gera þurfi fyrirvara, vegna þess að þeir vissu alveg hvað lá til grundvallar þegar þeir gáfu þetta álit. Alla vega eins og ég skil það var það ekki þeirra skilningur að þetta væru hinir lagalegu fyrirvarar heldur voru þeir að gefa leiðbeiningar um að ef fólk vildi fara þessa tilteknu leið þyrfti að gera lagalega fyrirvara, sem ekki væru fram komnir.

Það er einmitt ástæða þess að við erum búnir að vera að kalla eftir því að við verðum þá leiðréttir og munum þá éta það ofan í okkur ef hér koma doktorar í lögfræði og segja okkur að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Áslaugu Örnu að þetta séu hinir lagalegu fyrirvarar, þeir verði settir í innleiðingargerðina, óbreyttir og orðréttir frá því sem hér stendur, og muni halda. Það er aðalmálið, að þeir haldi, því að þetta eru beltið og axlaböndin sem svo margsinnis er búið að tala um.

Ég ætla alla vega að fullyrða að það er afskaplega hæpið fyrir hvern sem er að lesa þessa málsgrein á blaðsíðu 3 í nefndarálitinu og telja það fullgilda lagalega fyrirvara í samningi þegar í sömu tillögu er sagt að innleidd verði sú reglugerð á hefðbundinn hátt sem mestur styrinn stendur um. (Forseti hringir.) Eftir það verði ekki gerðir fyrirvarar. — Það verður ekkert „eftir“.