149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er svolítið fróðlegt að bera saman umhverfi raforkumarkaðar á Íslandi og svo umhverfið í Evrópu. Það er mikilvægt að skoða þessar ólíku aðstæður í þessari umræðu. Við þekkjum að orkuverð í Evrópusambandinu er hátt en það er tiltölulega lágt á Íslandi, mun lægra en í Evrópu. Það er skortur á raforku í Evrópusambandinu en Ísland á nóg af raforku. Það ríkir óstöðugt verðlag á raforkumarkaði í Evrópu. Hér á landi búum við við stöðugt verðlag á raforku. Það er þekkt t.d. í Evrópu að verð á raforku er mun hærra að vetri til, svo að dæmi sé tekið.

Síðast en ekki síst er það náttúrlega markaðurinn sjálfur, hann snýr að 28 ríkjum með 500 milljónir íbúa. En hér á landi er markaðurinn mjög lítill eins og við þekkjum, um 340.000 manns. Þessar aðstæður eru allar gjörólíkar. Má því ekki segja, og er hv. þingmaður ekki sammála mér í því, að hagsmunir okkar fari ekki saman? Ég held að það sjái það allir. Hér á landi eru 90% af virkjununum í eigu hins opinbera, þ.e. sameign þjóðarinnar.

Það væri gott að fá álit hv. þingmanns á þessu, þeim mikla mun (Forseti hringir.)sem liggur þarna á milli, og hvað honum finnst hvað það varðar.