149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það hefur vakið mörgum undrun hversu mikið liggur á með þetta mál. Af hverju er lögð svona mikil áhersla á að keyra mál í gegn sem hæstv. ráðherra sjálfur hafði meira að segja ýjað að að þyrfti ekki að afgreiða á haustþinginu? Hvað veldur? Það er ekkert sem bendir til þess að það sé einhver sérstök tímaþröng í málinu, ekki neitt.

Það er eitt sem ég veitti athygli í þessu máli sem hefur ekki fengið mikla athygli hingað til, en hér held ég á sameiginlegri yfirlýsingu EFTA-ríkjanna í EES um sérstöðu Íslands, frá 10. maí 2019, sem birtist á vef utanríkisráðuneytisins. Þar á vefnum er frétt um að hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi kynnt á ríkisstjórnarfundi sameiginlega yfirlýsingu Íslands, Noregs og Liechtensteins, sem er fyrir algjöra tilviljun í öllum meginatriðum eins orðuð og sameiginleg yfirlýsing hæstv. ráðherra og síðan framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Það sem hefur kannski fengið litla athygli hingað til er niðurlagsmálsgrein fréttatilkynningarinnar. Ég ítreka að þarna er sem sagt verið að segja frétt af sameiginlegri yfirlýsingu EFTA-ríkjanna í EES um sérstöðu Íslands og vísað í fund þar sem farið var yfir þessi mál. Og í niðurlagsmálsgrein fréttarinnar segir, með leyfi forseta:

„Fulltrúar Evrópusambandsins lásu einnig upp yfirlýsingu á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar um mikilvægi þess að þriðji orkupakkinn yrði samþykktur á öllu EES-svæðinu, það væri forsenda hnökralausra orkuviðskipta á milli ESB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES sem þegar eru tengd sameiginlegum orkumarkaði.“

Einhver myndi kalla þetta ekkert mjög dulbúna hótun í kveðju Evrópusambandsins. Einhver myndi spyrja: Hér er búið að flagga því í allar áttir að það sé bara ekkert í þessu, það sé engin tenging og þetta skipti engu máli. Þetta er allt í einu orðin „forsenda hnökralausra orkuviðskipta á milli ESB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES sem þegar eru tengd sameiginlegum orkumarkaði.“

Er þetta kannski það sem allt snýst um? Geta hv. þingmenn fengið að sjá þessa yfirlýsingu sem fulltrúar Evrópusambandsins lásu upp? Mér vitanlega hefur hún ekki komið fram í gögnum málsins. Ég ætla bara að leyfa mér hér með, af því að ég sé í hliðarsal þaulsetinn formann utanríkismálanefndar, að nefna að það væri áhugavert að heyra hvort hún gæti bent mér á hvar í gögnum málsins þessi yfirlýsing fulltrúa Evrópusambandsins er, sem var lesin upp. Þetta niðurlag fréttarinnar af þessum fundi bendir til þess að þarna hafi fulltrúar Evrópusambandsins mætt og tugtað til fulltrúa EFTA-ríkjanna. Með leyfi forseta, aftur:

„Fulltrúar Evrópusambandsins lásu einnig upp yfirlýsingu á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar um mikilvægi þess að þriðji orkupakkinn yrði samþykktur á öllu EES-svæðinu, það væri forsenda hnökralausra orkuviðskipta á milli ESB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES sem þegar eru tengd sameiginlegum orkumarkaði.“

Þetta er málsgrein sem bendir til þess að þarna sé eitthvað meira undirliggjandi. Ég óska eftir því að við þingmenn verðum upplýstir um hvað það var sem fulltrúar Evrópusambandsins lásu þarna upp, að því er virðist yfir hausamótum fulltrúa EFTA-ríkjanna. Ef ekkert var í því nema það sem kemur fram í kynningunni þá liggur það bara fyrir þegar þetta verður opinberað. En það er allt sem bendir til þess að þarna hafi fulltrúar Evrópusambandsins lesið yfir fulltrúum EFTA-ríkjanna lítt eða illa dulbúna hótun. Hvort það er það sem kallar á þessi hroðvirknislegu vinnubrögð og asa, ég veit það ekki. Hér kemur enginn og svarar. (Forseti hringir.)

En ég vildi að nefna þetta af því að ég (Forseti hringir.) hef ekki veitt því athygli áður og ég (Forseti hringir.) held að ég hafi hlustað á allar ræðurnar. (Forseti hringir.) Þessi yfirlýsing held ég að sé ekki hluti af gögnum málsins.