149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Það er gaman frá því að segja að ég var að velta því fyrir mér, af því að ég sé að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem hafa setið í hliðarsal lengstum í kvöld eru farnir, hvernig við gætum náð þeim inn til umræðunnar. Einn möguleikinn í þeim efnum væri auðvitað að fara yfir efnislega afstöðu flokksins í gegnum tíðina og það hvernig sýn baklands flokksins, eins og það er stundum kallað, kemur fram í skoðanakönnunum. Það hlýtur að vera mjög skrýtið samband milli stuðningsmanna og þingflokks þessa dagana. En þetta á ekki aðeins við um Sjálfstæðisflokkinn. Þetta á við um Framsóknarflokkinn, sem virðist ganga beint gegn ályktunum þess sem þeir kalla grasrót sína. Síðan eru Vinstri grænir kapítuli út af fyrir sig. Þeir hafa verið harðir á móti fyrsta og öðrum orkupakkanum en kúvenda nú. Kannski ræðum við það á eftir við einhvern fulltrúa Vinstri grænna. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður virðist a.m.k. vera í húsi. Hún mætir alltaf í fundarstjórn. Kannski verður það upptakturinn að því að fá þau til samtals við okkur.

Ég verð að fá að koma betur að því í seinna svari mínu en það hvernig þetta mál er rekið áfram gerir ekkert annað en að ýta undir grunsemdir um að það sé eitthvað þarna sem menn treysta sér ekki til að rökræða, til að fara í gegnum á opinn (Forseti hringir.) og gegnsæjan máta. Sú tilfinning ágerist jafnt og þétt.