149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara þessi málsgrein í frétt frá 10. maí á vef utanríkisráðuneytisins, sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna, EES, um sérstöðu Íslands, niðurlagið er þeirrar gerðar að mann getur ekki annað en grunað að það sé eitthvað í málinu öllu sem okkur fulltrúum í stjórnarandstöðunni er ekki sagt frá. Kannski er það bara það að menn hafa það ekki í sér að segja frá því að þeir séu dálítið litlir í sér, hræddir við fulltrúa Evrópusambandsins sem lásu eitthvað upp. Það getur auðvitað verið ógnvekjandi þegar koma einhverjir Eurokratar frá Brussel og lesa upp fyrir mann. Menn taka slíku á mismunandi hátt. En maður veit ekki hvort sú málsgrein er sett hérna inn til að hafa sagt frá því og geta vísað í það síðar.

Það er ekkert í ræðum um málið, í greinargerð eða þingsályktunartillögunni sjálfri sem ég hef veitt athygli sem ýjar að því sem þarna kemur fram og er sagt berum orðum, að innleiðing þriðja orkupakkans af hendi Íslands sé forsenda hnökralausra orkuviðskipta á milli ESB-ríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES sem þegar eru tengd sameiginlegum orkumarkaði. Sem sagt: Innleiðing Íslands er forsenda þess að t.d. Noregur geti átt hnökralaus orkuviðskipti við önnur ríki í ESB.

Það er ágætt ef þetta kemur fram, að sú hótun sé yfirvofandi. Þá meta menn stöðuna út frá því. En á meðan við þingmenn (Forseti hringir.) þurfum að leita að svona upplýsingum með stækkunargleri þá (Forseti hringir.) er það ekki til þess gert að auka á trúnað manna á milli.