149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar stórt er spurt: Þetta eru áhugaverðar vangaveltur um hagsmunina þarna. Í þessu samhengi dettur mér helst í hug óteljandi greinar, ætla ég að leyfa mér að segja, og bloggpóstar hér og þar á internetinu, þar sem því hefur verið haldið fram að efasemdir okkar þingmanna Miðflokksins gangi allar út á það að flytja skilaboð norskra stjórnvalda inn í íslenska stjórnmálaumræðu. Ég átta mig í sjálfu sér ekki á því. Ef hagsmunirnir eru hinir norsku hagsmunir, sem ég ímynda mér að séu bestir og stærstir, þá er aldeilis orðin omvent staða okkar í Miðflokknum samanborið við það sem svo ákveðið hefur verið haldið að fólki. Kannski eru þetta hagsmunir einhverra af þjóðunum sem taka við orku frá Noregi, sem ég gef mér að sé stærsti útflutningsaðili orku af EFTA-ríkjunum sem eru tengd hinum sameiginlega orkumarkaði, þannig að böndin beinast þangað. En það setur í allt annað samhengi þessar ávirðingar, eða hvað sem hægt er að kalla það, þessar stöðugu yfirlýsingar, um að við séum að ganga erinda Norðmanna — hvað sem það nú þýðir, ekki hef ég verið í sambandi við neina Norðmenn í þessu máli öllu, þó að þeir séu auðvitað hin prýðilegasta þjóð og góðir vinir okkar. Ég get ekki boðið upp á betra svar en upplýst gisk væri að hagsmunirnir lægju mestir hjá orkuútflytjendum í Noregi.