149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:55]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka þingmanninum fyrir ræðuna sem var afar áhugaverð og kom inn á nýja punkta sem hafa ekki verið ræddir hér. Hún fjallaði að hluta til um samlestur utanríkisráðherra og einhverra kommissara niður í Evrópu og maður spyr sig að því hvort lesskilningur eða skortur á honum hjá íslenskum drengjum teygi sig lengra upp í aldri en áður hefur verið gert ráð fyrir.

Sú staðreynd að utanríkisráðherra er ekki á svæðinu vekur athygli mína. Hann var hér í fyrri umræðu stutt, las hratt og flýtti sér svo frá því. Hann hefur ekki sést hér í síðari umræðu um eigin þingsályktunartillögu og hefur lýst því fjálglega að þetta sé algjört núllmál, það skipti engu máli, hafi engin áhrif, skipti engu. Því sjónarmiði er algerlega hafnað af hálfu Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, að þetta skipti ekki máli. Þetta skiptir nefnilega verulegu máli.

Ég velti því fyrir mér og langar til að spyrja hv. þingmann um hvort það geti verið, því nú hefur okkur verið brigslað um að vera ekki lesnir eða hafa ekki skoðað hluti, hvort þetta skjal sé lesið allt með „control – find“ og skjölin sem fylgja álitsgerðinni. Það virðist vera sem stokkið hafi verið á niðurstöðuna og sagt: Heyrðu, það eru tvær leiðir, við tökum þá verri. Án forsendna. Tíminn er nú að renna út en ég kem kannski nánar inn á það í seinni ræðu minni hvað ég er að benda á akkúrat þarna.