149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:00]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég spurði um þetta er að í álitsgerð téðra manna segir, með leyfi forseta:

„Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en“ — áður, það er lykilorð — „Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.“

En það er akkúrat það sem verið er að reyna, og ég bið forláts á, að böðla hér í gegn um miðja nótt.

Þegar þessari umræðu lýkur verður það samþykkt í óþökk Miðflokksmanna að þessi gerð verði innleidd. Þá er verið að taka í lög ákvæði sem brjóta í bága við íslenska stjórnarskrá. Það sætir furðu að hæstv. ráðherra sé ekki hér á svæðinu eða þá aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra til að mynda sem ber þó ábyrgð á þessu starfi.

Ég kemst ekki alveg yfir það að hægt sé að vinna þessi mál svona á hinu háa Alþingi og svo er á tyllidögum hægt að tala um að auka veg og virðingu Alþingis. Hér sé allt í sóma og við ætlum að leiða starf þjóða í heiminum og hafa áhrif. Það hafa verið haldnar innblásnar ræður um það. Hver ætli vilji fá okkur í forsvar til að leiða nokkurn skapaðan hlut nokkurs staðar þegar við högum okkur svona?