149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að svara síðustu spurningunni fyrst þá verða það væntanlega þeir einir sem vilja láta leiða sig út í skurð sem myndu óska slíkrar forystu. Ég kem að svörum við spurningunni á eftir. Þessi umræða um viðveru ráðherrans við fyrri umræðu og alger skortur á viðveru við síðari umræðu — ég velti því upp að ráðherrann geti bara komið hérna til okkar og útskýrt fyrir okkur hvern fyrirvaranna fjögurra hann hafði hugsað sér að nota. Það væri auðvitað hægt að kalla hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur á svæðið. Hún er ábyrg fyrir einum af þessum fjórum meintu fyrirvörum sem fundust.

Ég beini því hér með til forseta að hlutast til um að hæstv. utanríkisráðherra verði kallaður á svæðið svo við getum átt orðastað við hann þrátt fyrir að um sé að ræða síðari umræðu, ekki hina fyrri. Það er algerlega óboðlegt að okkur sé boðið upp á það að eftir 13 klukkutíma — það eru 13 klukkutímar síðan þessi spurning kom upp — sé eina svarið sem við fáum það að Miðflokksmönnum sé það í sjálfsvald sett að ljúka þessum fundi með því að hætta að tjá sig. Á sama tíma fóru þingmenn heim í trausti þeirra orða forseta að fundi yrði ekki haldið áfram fram á nótt og þeir kæmust að með sín sjónarmið þegar umræðan yrði opnuð aftur.

Ég á lítið eftir af tímanum og bið hv. þingmann afsökunar, vona að hann fyrirgefi mér það að hafa ekki svarað spurningunum, en umræða hans orsakaði það að ég eiginlega varð að tjá mig á þeim nótum sem ég gerði og óska eftir því að forseti kallaði eftir ráðherra á svæðið.