149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er fróðlegt að skoða þetta mál. Nú tek ég það fram, og kannski rétt að upplýsa þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins um það, að það sem ég ætla að segja hef ég ekki sagt áður í umræðunni, þannig að hann ætti að leggja vel við hlustir. Það er fróðlegt að bera þetta mál saman við Brexit-málið. Við erum að samþykkja markaðsreglur og neita að tengjast markaðnum, sem er ekkert annað en pólitísk klúður í takt við Brexit.

Sjálfsagt verður þetta almennt hlátursefni um alla Evrópu, rétt eins og Brexit-klúður Breta, Íslendingar að samþykkja markaðsreglurnar og neita síðan að tengjast markaðnum. Það hefur enginn, hvorki EES-ríki né ESB-ríki, nokkurn hag af því að þessi pakki sé knúin í gegn hér og nú. Hann er búinn að bíða í tíu ár og getur þess vegna beðið lengur, alla vega á meðan engin sæstrengur er fyrirhugaður, þá er ekkert með þennan pakka að gera. Hann gerir engum gagn, eins og sagt er, hvorki í Evrópusambandinu né EES-samstarfinu. Af honum hlýst aðeins kostnaður að mínu mati og aukin vandræði í stjórn raforkumála okkar Íslendinga.

Það er fróðlegt, herra forseti, að skoða ræður þingmanna aftur í tímann um sama mál, raforkumarkaðsmál. Hér er t.d. að finna ræðu sem haldin var 22. mars 2018 af fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssyni. Með leyfi forseta vil ég vitna í ræðu hans. Þar segir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra:

„Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?“

Þessa ræðu flutti fjármála- og efnahagsráðherra fyrir rétt um ári síðan, hann sem er núna í ríkisstjórn og stendur fyrir því að koma okkur með offorsi undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu.

Ég spyr: Er nema von að Alþingi Íslendinga njóti ekki mikils trausts meðal landsmanna þegar við sjáum og heyrum ræðu af þessu tagi og sjáum svo hvernig sömu aðilar gera þvert á það sem þeir hafa talað um og boðað?

Ég segi eins og er, herra forseti, að það er dapurlegt að horfa upp á slík vinnubrögð og það hvernig menn geta borið svona hluti á borð fyrir þjóðina, spurt í einu orðinu hvers vegna í ósköpunum okkur liggi á að komast undir sameiginlegt raforkumarkaðskerfi í Evrópu og í hinu orðinu vinna að því hörðum höndum að koma okkur undir þetta sameiginlega raforkumarkaðskerfi.

Því miður held ég að stjórnmálamenn sem koma svona fram gagnvart þjóð sinni njóti ekki mikils trausts meðal almennings og að lífdagar þeirra í stjórnmálum verði ekki langir.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Ég náði ekki að klára ræðu mína og óska því eftir að vera settur aftur á mælendaskrá.