149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þær eru sannarlega ekki einfaldar skýringarnar á þessum mikla viðsnúningi með einum eða öðrum hætti innan allra ríkisstjórnarflokkanna. Vinstri grænir hafa með svipuðum hætti, þótt annars eðlis sé, tekið U-beygju í stóru mynd þessa máls. Ef ég man rétt voru þingmenn Vinstri grænna allir á móti innleiðingu fyrsta orkupakkans. Ég held að ég muni það rétt að þeir hafa allir verið á móti innleiðingu annars orkupakkans.

Hefur hv. þingmaður heyrt eitthvað í málflutningi fulltrúa Vinstri grænna hér við fyrri eða síðari umr. sem skýrir þessa umbyltingu og þá kannski í leiðinni; hafa þau sjónarmið sem snúa að að frekari virkjunum og umhverfisvernd eitthvað verið rædd af fulltrúum Vinstri grænna sem komið hafa upp í umræðunni hingað til, annaðhvort við fyrri umr. eða það sem af er síðari umr.?

Ég held að ég hafi séð allar ræðurnar í fyrri umr. og hef fylgst með þeim í síðari umr. Ég man ekki eftir neinu sérstöku sem útskýrir þá skoðun Vinstri grænna að þriðji orkupakkinn sé fullkominn og frábær en hinir tveir hefðu verið ómögulegir, nema ef vera skyldi það eina atriði að nú eru þeir í ríkisstjórn. Er einhver önnur kenning uppi sem hv. þingmaður þekkir til? Það væri áhugavert að heyra hvort ég hafi misst af einhverju. Þetta er gæti orðið grunnurinn að því að ná hv. þingflokksformanni Vinstri grænna hingað í samtal við okkur.