149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:36]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna. Það er ágætt að taka þessa umræðu vegna þess að ég held að fólkið, þjóðin, sé svolítið hugsi yfir þessu. Hér situr ríkisstjórn þriggja flokka og þessir þrír flokkar höfðu, að því er ég best veit, allir lýst því yfir að þeir myndu ekki fara í þessa vegferð. En svo snýst þeim hugur og maður spyr þá: Er það hluti af ríkisstjórnarsáttmálanum að þetta skuli gert, eða kemur þrýstingur einhvers staðar annars staðar frá sem ríkisstjórnin telur sig þurfa að láta undan en upplýsir ekki um? Og það kom fram í ræðu áðan að hörðustu fylgismenn, jafnvel fyrrum leiðtogar þessara flokka, hafa lýst því yfir að ekkert liggi á að fara í þessa vegferð.

Það vakti athygli landsmanna í fyrradag þegar fyrrum ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, skrifaði í Morgunblaðið slíka grein, hann taldi að með þessari aðgerð, eða það mátti lesa út úr þeirri grein alla vega, gæti Sjálfstæðisflokkurinn hreinlega þurrkast út, en ýjað var að því í niðurlagi greinarinnar að kannski myndu þeir ná manni á þing.

Er eitthvað annarlegt sem býr hér að baki eða er það eitthvað sem er hægt að útskýra og væri hægt að kalla eftir því?