149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta eru svo sannarlega réttmætar hugleiðingar og eðlilegar í ljósi þess sem við höfum verið að ræða hér. Maður áttar sig ekki alveg á því, eins og ég hef farið yfir, hvers vegna þessi sinnaskipti eru. En það sem mér finnst mestu varða er að viðkomandi stjórnmálamenn og alþingismenn hafa greinilega ekki miklar áhyggjur af trúverðugleika í þessum efnum. Einn mikilvægasti eiginleiki stjórnmálamanna er traust og trúverðugleiki. Menn halda langar ræður, kröftugar og miklar ræður, og sumar hverjar haldnar fyrir réttu ári — þess efnis að þennan orkupakka eigum við ekki að innleiða, og hvað ríki Evrópusambandsins hafi um okkar málefni að segja o.s.frv., finna þessu allt til foráttu — en þurfa síðan ekki annað en setjast í ríkisstjórn og breyta þá um skoðun eins og ekkert sé og hafa engar áhyggjur af því sem þeir sögðu, jafnvel fyrir tæpu ári.

Það er mér, herra forseti, algerlega hulin ráðgáta hvernig stjórnmálamenn geta leyft sér að koma fram við þjóð sína. Ég verð bara að segja það. Engin rök mæla með því að menn komi fram með þessum hætti. Vissulega geta menn skipt um skoðun, en þetta er sama málið. Þetta er orkupakki eitt og orkupakki tvö og orkupakki þrjú.