149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Gott og vel, hv. þingmaður er bjartsýnismaður. Ég kann sannarlega að meta það. Ég skal þá endurorða spurninguna: Getur hv. þingmaður tekið undir að ef þau markmið sem lýst er í þessum orkupakka, um samtengingu evrópska raforkukerfisins, ná til Íslands og Ísland verður hluti af því samtengda kerfi sé veruleg hætta á því að sú saga sem hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni, þar sem orkan hefur verið notuð til að byggja upp atvinnulíf og ýmis svið atvinnulífs — að a.m.k. verulegur hluti þessarar orku rynni úr landi og nýttist þar af leiðandi ekki til uppbyggingar heima og (Forseti hringir.) að tekjurnar af því, verandi í eigu erlendra aðila, rynnu úr landi líka?