149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir spurninguna og hrósið fyrir þessa ræðu. Að hún sé svo góð að hana ætti að gefa út bók, ég er nú alls ekki sammála því. Hagsæld, já — ég held að virkjun fallvatnanna hafi haft gífurleg áhrif og kannski meira en menn gera sér grein fyrir í dag. Við erum komin svolítið frá þessu í tíma, upphafinu það er að segja.

Við hófum þessa vegferð um 1960. Við erum komin töluvert langt frá þeim tíma og menn vilja kannski gleyma því. Ég held að þetta sé mjög stór þáttur í hagsæld þjóðarinnar í dag, þ.e. að okkur hafi tekist að beisla fallvötnin og búa til dreifikerfi, sem er öflugt. Þetta er mikill og stór þáttur í framförum og hagsæld og auðlegð þjóðarinnar.

Þá kem ég kannski að spurningu hv. þingmanns um hætturnar. Við missum aldrei þessi vötn frá okkur, þau verða alltaf á Íslandi. Það er enginn sem tekur þau. Það sem gæti gengið kaupum og sölum er þá frekar nýtingarrétturinn. Þetta er allt undir stjórnvöldum á hverjum tíma komið. Það er nú þannig að stjórnvöld koma og fara. Það ríður á að þau standa í lappirnar og fjarlægist ekki þjóðina og þessar meginhugmyndir um að við eigum að njóta góðs af auðlindum okkar og að stjórnvöld gangi ekki í of miklum mæli erinda einkavæðingar á auðlindum þjóðarinnar.