149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir virkilega góða ræðu. Ánægjulegt að hann komi með svona sögulegt yfirlit, sem á vel við, um mikilvægi þess fyrir okkar þjóð og framfarir okkar að eiga næga orku.

Mig langar aðeins að koma inn á það við hv. þingmann hvernig forsendur hafa breyst í ýmsu tilliti hvað EES-samninginn varðar frá því að hann tók gildi. Fyrrum utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur sagt að í aðdraganda samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, í samningsgerðinni sjálfri, hafi aldrei verið rætt um sameiginlegan orkumarkað. Það var heldur aldrei rætt um að sá dagur rynni upp að við þyrftum að opna landið fyrir innflutningi á ófrystu kjöti og stefna þar með okkar hreina landbúnaði í hættu.

Sá dagur er nú runninn upp og ríkisstjórnin gafst upp í því máli. Á haustmánuðum sjáum við að hingað verður flutt inn hrátt kjöt frá Evrópu sem stefnir okkar hreina landbúnaði og búfjárstofnum í mikla hættu.

Kjarni málsins er þessi: Sá EES-samningur sem var samþykktur í þinginu fyrir 25 árum er ekki sá EES-samningur sem við erum aðilar að í dag. Það kristallast akkúrat í því stóra máli sem við ræðum hér.

Því spyr ég: Eigum við bara að taka þessu möglunarlaust, þrátt fyrir að hafi ekki verið lagt upp með þetta í upphafi? Ef hv. þingmaður gæti aðeins svarað því.