149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurninguna. Já, EES-samningurinn hefur verið að þróast. Honum hefur undið fram. Eins og við verðum vör við hér í þinginu eru gerðir teknar upp stöðugt og í miklu magni í íslenskan rétt.

Varðandi þetta regluverk, þriðja orkupakkann: Menn virðast vera eitthvað feimnir við að senda það aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá vil ég benda á að það er bara í lögunum sjálfum, í EES-samningnum, farvegur fyrir slíkan ágreining eins og hér er uppi. Ef það væri nú niðurstaðan að við vildum ekki taka þetta upp svona óbreytt er þessi farvegur til. Hann er lögbundinn og leiðin er í samningnum. Þess vegna átta ég mig ekki á því af hverju menn vilja ekki einfaldlega fara þá leið.

Himinn og jörð munu ekki farast við það.

Fræðimenn hafa einmitt nefnt það. Þó að einhverjir hafi einhverjar efasemdir um að það gæti valdið óróa, pólitískt, eða sett samstarfið í eitthvert uppnám tel ég ekki svo vera. Þetta er í samningnum og við eigum þessa leið. Við eigum rétt á því að leita þessarar leiðar.

Þannig að ég tel að það sé bara mjög vel fær leið.

Varðandi það sem Jón Baldvin Hannibalsson á að hafa sagt, að orkumálin hafi ekki verið hluti af upphaflega EES-samstarfinu, hef ég ekki kannað það sjálfur en ég myndi gjarnan vilja fá svar við því. En hann hefur haldið þessu fram.